Hæstaréttarmálið nr. 300/1992. - Ferill

Hæstaréttarmálið nr.300/1992

 

1)        Tildrög þessa máls eru þau að þann 22. janúar 1983 féll krapaflóð úr Geirseyrargili við  Patreksfjörð  . Flóð  þetta féll á hús þeirra hjóna Guðbrands Haraldssonar og Vigdísar Helgadóttur  með þeim  hörmulegum afleiðingum að  tvö börn þeirra hjóna, sex ára stúlka og tólf ára drengur grófust undir flóði þessu . Stúlkan lést en drengnum var naumlega bjargað. Í þessum hamförum eyðilagðist húsnæði fjölskyldunnar. En hún hafði flutt til Patreksfjarðar tveimur árum áður og byggt þetta hús.

 

2)        Strax eftir slysið vaknaði sá grunur að umfang og stefna krapaflóðsins hefði orðið með fyrrgreindum hætti vegna framkvæmda við Geirseyrargil, sem unnar voru á vegum Patrekshrepps í október 1982.

 

3)        Fljótlega eftir atburðina hófu þolendur að leita skýringa á flóðinu og afla ítarlegri upp­lýsinga. Öll bönd bárust að áðurnefndum framkvæmdum við Geirseyrargil. Þolendur voru afar ósáttir við tjónamat og bætur, kvörtuðu m.a. við þáverandi félagsmála­ráðherra. Margir gátu ekki heldur sætt sig við að þagað væri yfir hugsanlegum mistökum sem gátu valdið slíkum hamförum, ekki síst með tilliti til fordæmisgildis slíkra ákvarðana. Deilur hófust milli þolenda og yfirvalda. Guðbrandur lét ítrekað þá skoðun sína og grun í ljós við sveitarstjórn, að áðurnefndar framkvæmdir væru orsök slyssins og m.a. á grund­velli þess gerði hann kröfur um bætur. Þetta kemur t.d. fram í bréfi hans til hrepps­nefndar dags. 24. febrúar 1984 og í bréfi til félagsmálaráðuneytisins dags. sama dag. Fjölskyldan gat með engu móti hugsað sér að búa áfram á slysstað og flutti aftur til Reykjavíkur án þess að hafa náð fram rétti sínum gagnvart Patrekshreppi.

 

4)        Reynt var að fá lögfræðinga til að reka þetta mál, en það var auðvitað erfitt um vik, þar sem hjónin voru komin í þrot og gátu ekki borgað háar upphæðir fyrir hugsanlega margra ára málarekstur. Engu að síður fékk Guðbrandur um tíma Svölu Thorlacius lögmaður vorið 1985 til að vinna nokkuð í málinu. Í ágústmánuði 1985 sendi Svala hreppsnefnd Patrekshrepps bréf, þar sem hún leitaði eftir samkomulagi um bætur til hjónanna. Lögmaðurinn fékk svar frá sveitastjóranum, þar sem segir „Hafnar sveitarstjórn viðræðum um hugsanlegar bætur, þar sem hún telur Patrekshrepp ekki bótaskyldan.“ Engar frekari skýringar fylgdu.

 

5)        Næst kom Guðni Á. Haraldsson lögmaður að málinu fyrir þau hjón, aflaði hann ýmissa upplýsinga, en þar sem hjónin gátu ekki greitt honum lagði hann málið frá sér. En í gegnum vinnu hans fengust upplýsingar sem not eru af í máli þessu. Guðni sendi m.a. fyrirspurn til sveitarstjóra um áðurnefndan „varnargarð“. Í svari sveitarstjóra kemur fram, að hann hafi árið 1981 fyrirskipað að fylla upp í skörð á „eldri garði“ og þar hafi hvorki verið bætt í né tekið úr, eins og það var orðað. Segir sveitarstjórinn í bréfi sínu, að þessar framkvæmdir hafi verið ákvörðun sveitastjórna á hverjum tíma, árin 1945 og 1962.  Á hinn bóginn sýna loftmyndir teknar af Landmælingum Íslands engin ummerki um garð þennan fyrir ágúst 1981. Ennfremur kemur fram í bréfi Ívars Páls Arasonar ýtustjóra og við vitnaleiðslur fyrir dómi að hann minnist þess ekki að garður hafi verið þarna fyrir, né heldur er þess getið í gerðarbókum hreppsins að því best er vitað.

 

6)        Eftir að Guðni Á. Haraldsson lögmaður hætti með málið héldu hjónin sjálf áfram að afla upplýsinga og reyna að þrýsta á um lyktir málsins. Meðal annars var sérfræðingi í snjóflóðum, Hafliða Jónssyni, sendar spurningar varðandi áðurnefndar framkvæmdir og hugsanleg áhrif þeirra á krapaflóðið, en hann skoðaði vegsummerki ásamt Helga Björnssyni jöklafræðingi á vegum Almannavarna fjórum dögum eftir flóðið. Í bréfi Hafliða kemur fram að hann hafi ekki sem sérfræðingur í snjóflóðavörnum verið spurður um staðsetningu þessara varnagarða. „Ég veit ekki hvaða tilgangi þeir þjónuðu“ segir Hafliði Í lok bréfs síns og lætur sérfræðingurinn í ljós efasemdir sínar um fram­kvæmdirnar eins og vitnað var til í bréfi hjónanna til Mannréttindanefndar. Í þessu sambandi er einnig rétt að vekja athygli á ummælum Guðjóns Petersen forstöðumanns Almannavarna í blaðaviðtali í desember 1987. „Ég held að menn hafi orðið sammála um að garður þessi hafi beint flóðinu í ákveðinn farveg. Það er aldrei hægt að fullyrða neitt um snjóflóð, en hugsanlega hefði flóðið getað dreifst öðruvísi án garðsins og þá mögulega orðið kraftminna. Það er til dæmis talin góð snjóflóðavörn að byggja svona garða til að beina flóðum frá byggð. En þarna beindi hann flóðinu á ákveðinn stað í byggðinni.“

 

7)        Er hér var komið sögu voru hjónin búin að reyna flestar leiðir til þrautar sem venjulegu fólki býðst í tilvikum sem þessum í stríði við „kerfið“. Þar á meðal hafði Guðbrandur átt frumkvæði að því að vekja athygli á málinu í fjölmiðlum. En til þess að geta leitað réttar síns með eðlilegum hætti, þ.e. með aðstoð lögfræðinga, hefði hann þurft fjármagn. Þrautalendingin var þá sú, að leita til ríkissaksóknara í febrúar 1988 og óska eftir opin­berri rannsókn. Með kærunni til ríkissaksóknara létu þau hjón fylgja ýmis gögn varðandi málið. Ríkissaksóknari lét ekki svo lítið að kanna málið með viðtölum eða yfirheyrslum, heldur sendir hann Guðbrandi bréf 2. mars þar sem hann hafnar öllum óskum hans og kröfum. Ekki sætti Guðbrandur sig við þessa niðurstöðu saksóknara. Ríkissaksóknari hefur að því er virðist gjörsamlega forsómað að kanna heimildir og mál þeirra hlítar, að þolendur gætu sætt sig við úrskurð embættisins. Þess vegna óskuðu hjónin eftir að umboðsmaður Alþingis tæki málið að sér enda fokið í flest önnur skjól.

 

8)        Umboðsmaður Alþingis fékk kæru þeirra hjóna í hendur í júlí 1988. Í janúar 1989  barst svar frá honum þar sem hann taldi sér ekki fært að fjalla nánar um kvörtun þessa á þessu stigi málsins en benti á ákveðna leið fyrir hjónin í málarekstrinum.

 

9)        Í bréfi umboðsmanns kom fram að hugsanlegt væri að þau hjón gætu leitað gjafsóknar hjá dómsmálaráðuneytinu til að þau gætu rekið einkamál fyrir dómstólum. Var þetta gert með bréfi dagsettu 13. febrúar 1989. Þeirri beiðni var hafnað með bréfi 22. ágúst sama ár.

 

10)    Beiðni um gjafsókn var ítrekuð með bréfi hjónanna dags. 19. janúar 1990 og að þessu sinni brást dómsmálaráðuneytið vel við með bréfi 20. júní 1990. Gjafsókn var heimiluð í málinu til að þau hjón gætu rekið einkamál gegn Patrekshreppi.

 

 

11)    Sigurður Georgsson lögmaður höfðaði mál fyrir hönd þeirra hjóna gegn Patrekshreppi fyrir undirrétti. Málið var rekið fyrir aukadómþingi Barðastrandarsýslu. Sýslumaðurinn sagði sig frá málinu þar sem hann hafði átt sæti í hreppsnefnd þegar áður nefndir atburðir áttu sér stað sem og verið fulltrúi Almannavarna á staðnum.

 

12)    Málið var höfðað með stefnu birtri 7. ágúst 1991 og dómtekið að lokinni vettvangsgöngu og munnlegum málflutningi í maí 1992. Þetta var í fyrsta skipti í allri þessari píslargöngu hjónanna fyrir dómstólum og í samskiptum við kerfið, sem það nálgaðist málið með einhverju sem hægt væri að kalla fagleg vinnubrögð að þeirra mati.

 

13)    Dómari aukadómþingsins var Jón Finnbjörnsson settur héraðsdómari á Keflavíkur­flugvelli og fagmennirnir Þórarinn Magnússon verkfræðingur og Jónas Elíasson prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands. Þórarinn hafði t.d. farið á vegum Snjóflóðanefndar ríkisins til Sviss og Noregs til að kynna sér snjóflóðaathuganir í þessum löndum. Þetta var í fyrsta skipti sem dómstólar kölluðu til raunverulegra fagmanna við mat á áður nefndum framkvæmdum . Verkfræðingarnir fóru sjálfir og könnuðu aðstæður á Patreksfirði. Við yfirheyrslur í undirrétti yfir mönnunum sem stjórnuðu og unnið höfðu að framkvæmdum við margnefndan varnargarð kom fram greinargóð lýsing á umfangi framkvæmdanna og staðsetningu.

 

14)    Dómur féll í undirrétti 9. júní 1992. Þau Guðbrandur og Vigdís höfðu sigur í málinu. Rétturinn sagði að telja verði „sannað í máli þessu að framkvæmdir í gilinu á vegum sveitasjóðs hafi valdið því að krapaflóðið féll á hús stefnenda með því afli sem raun varð á“. Ennfremur: „Verður að telja að vanræksla sveitarstjórnar á að leita álits sérfræðinga áður en ráðist var í framkvæmdir leiði til þess að fella verður bótaskyldu á sveitasjóð vegna tjóns er hlaust af krapaflóðinu“. Hér er um samhljóða niðurstöðu þriggja dómara að ræða. Og í dómsorði er viðurkennd bótaskylda Patrekshrepps gagnvart stefnefndum máls þessa, þeim Guðbrandi og Vigdísi.

 

15)    En þessi dómur tveggja fagmanna og löglærðs dómara fékk ekki að standa lengi sem minnisvarði um réttlæti og viðurkenningu á möguleikum einstaklinga til að ná fram rétti sínum, Patrekshreppur áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar.

 

16)    Hæstiréttur ómerkti dóm undirréttar og röksemdir fagmannanna eru ekki einu sinni nefndar í niðurstöðu réttarins. Í niðurstöðum Hæstaréttar kemur hvergi fram að röksemdir undirréttar séu hraktar, engu er líkara en faglegt álit undirréttar hafi engu máli skipt.

 

17)    Í kjölfar flóðanna á Súðavík í janúar 1995 og á Flateyri október sama ár var hafin mikil vinna á vegum Veðurstofu Íslands og upplýsingaöflun um ofanflóð og þeirri ógn sem af þeim stafaði fyrir byggðirnar á Vestfjörðum sem og hvaða úræði væru möguleg byggðinni til varnar. Við þá vinnu komu ýmsar upplýsingar er varða ofanflóð á Patreks­firði þar með talin ofanflóðasaga Geirseyrargils og var sú útgáfa önnur en sú sem fram kom við réttarhöldin og í framburði Úlfars . Thoroddsen, sem var sveitastjóri þegar gilinu var breytt í október 1982, en flóðið fellur 22. janúar 1983 það er tveimur mánuðum eftir að breytingar voru gerðar. Og voru breytingar þessar orsök þess að fjölskyldan lenti í flóðinu og hversu alvarlegar afleiðingarnar voru.

 

18)    Í ljósi nýrra upplýsinga frá Veðurstofu Íslands hvað varðar ofanflóð í Geirseyrargili ásamt bréfi frá Helga Björnssyni og Hafliða Jónssyni dags. í mars 2000, en í því bréfi er kveðið skýrar á hvað varðar áhrif áður nefnds garðs á stærð og stefnu flóðsins, það er að hraði og stefna breytist vegna breytinganna í ljósi allra þessa upplýsinga, sem taka undir það sem fram kom í héraðsdómi. Þá er farið fram á endurupptöku málsins en þeirri beiðni er hafnað 2. desember 2002.

 

19)    Þrátt fyrir að niðurstaða Hæstaréttar valdi vonbrigðum er ekki gefist upp og bréf sent til Veðurstofu Íslands 29. nóvember 2003 og þess farið á leit að rannsókn fari fram á áhrifum garðsins og brást stofnunin við þeirri beiðni og í samstarfi við NGI. Niðurstaða úr þeirri rannsókn var samhljóma þeim niðurstöðum sem áður höfðu fram komið hjá öðrum sérfræðingum. Þannig að þeir sem voru á öndverðu meiði um áhrif framkvæmda þessar voru dómarar við Hæstarétt Íslands.

 

20)    Eftir að niðurstaða sérfræðinga Veðurstofu og NGI lá fyrir var haft samband við sveitar­stjórn Vesturbyggðar sem í ljósi þessara nýju skýrslu Veðurstofu og NGI ákvað að ganga til samninga við hjónin um bætur í samvinnu með umhverfisráðuneyti en eftir nokkurn tíma var þeim hjónunum gert smánar tilboð, sem að ráði lögmanns var tekið , þar sem endurupptaka var ekki möguleg.

 

21)    Eftir þessi málalok var þann 8. febrúar 2010 var sent erindi til forsætisráðherra og farið fram á aðkomu þess til lausnar málinu og barst svar þann 24. febrúar 2011, þar sem hjónunum var tjáð að ekki væru til úrræði í íslenskri löggjöf til að mæta óskum þeirra en Guðbrandi var boðin áfallahjálp en Vigdísi ekki né öðrum fjölskyldumeðlimum.

 

22)    Þegar hér var komið var sent erindi til mannréttindaráðherra þann 4. mars 2011 og óskað eftir fundi um málefni hjónanna. Þann 13. júlí 2011 átti Guðbrandur  fund með Ögmundi ráðherra  fór Guðbrandur yfir málið og fór þess á leit við ráðherra að fundin yrði leið til þess að bæta það sem miður hefði farið svo að þessum kafla í lífi þeirra hjóna gæti lokið þannig að við væri unað. Tók ráðherra vel í bón Guðbrandar án þess þó að lofa nokkru og var Helgi Valberg Jensson lögfræðingur, starfsmaður  ráðuneytisins, fengið verkefnið til yfirferðar.

 

23) í janúar byrjun 2013 var haft samband við Helga Seljan fréttamann hjá  RÚV og umsjónarmann Kastljós og var honum kynnt málið og í framhaldi af því var farið  til Patreksfjarðar þann 22.janúar 2013  á samt Sigurði Jakobssyni myndatökumanni en þann dag voru 30 ár frá því að atburður þessi gerðist.  Var haft tal af fólki á staðnum  sem voru sjónarvottar að slysinu  þar á meðal Úlfari B Thoroddsen  sem  var sveitastjóri á þeim tíma er atburður þessi gerðist og  lýsir hann með hvaða hætti breytingar á gilinu voru gerðar sem og tilgangi þessara breytinga

 

24) Þann 26 /4 2013 átti Guðbrandur fund með þeim Helga   Valberg Jenssyni  lögfræðing í Innanríkisráðuneytinu  og Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra þar sem farið yfir svör ráðuneytisins við erindi þeirra hjóna sem sent var 4 /3 2011 og þau útskýrð fyrir Guðbrandi  þar sem að fram  kemur hvaða úræði væri í boði fyrir þau hjónin til þess að ná mögulega fram rétti sínum, og er rétt  að það komi fram að þetta er í eina skiptið sem stjórnsýslan hefur sinnt leiðbeiningarskildu sinni gagnvart þeim hjónum

 

25)    Ég leyfi mér að benda á að fyrir áratug hafði samfélagið enga áfallahjálp né þrek eða vilja til að auðvelda fólki lífsbaráttuna eftir áfall sem hér um ræðir. Þannig var fólkið sálrænt, félagslega og ekki síst efnahagslega statt á berangri. Frá því strax eftir flóðið stóð svo fólk í hvimleiðu og slítandi stríði til að reyna að ná fram rétti sínum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband